31.10.2008 | 00:41
Er þetta mögulegt?
Ég er einn fjölmargra sem á nokkra upphæð í séreignarsparnaði. Ég á víst að geta byrjað að taka lífeyri úr þessum sjóði sextugur, en get líka frestað því og fengi þá hærri upphað á mánuði á skemmri tíma. Nú spyr ég mig hvort ekki er mögulegt að opna fyrir að nýta hluta sjóðsins til að losna við skuldir, s.s. yfirdrátt og myntkörfubílalán, sem líklega munu gera mig gjaldþrota á innan við hálfu ári, þó ég haldi vinnulaunum mínum. Það er því miður ekki útlit fyrir að ytri aðstæður (gengi og verðbólga) breytist svo til batnaðar, að gjaldþol verði viðráðanlegt. Ég spyr því hvort ekki megi breyta lögum um séreignasjóði á þann veg, að unnt sé að nýta hluta eignar, t.d. þriðjung, til að greiða upp örugga gjaldþrotavalda og að ég komist aftur á þann grunn að geta hafið séreignarsparnað að nýju? Auðvitað yrði slík fjárhæð skattlögð eins og lög segja til um. Hvað þarf til? Er ekki slík leið örugglega í þágu allra í efnahagskreppunni? Hver myndi missa spón úr aski sínum við slíka breytingu? Í fljótu bragði kem ég ekki auga á neinn; nema að það myndi líklega minnka möguleika sjóðsstjórnarinnar á að "spila" á markaði?
Þó er alltaf ein örugg leið til að þetta séreignarfé mitt geti mjög fljótlega komið að gagni við að eiga við fyrrnefnda gjaldþrotavalda búsins míns!! Þessi séreignarsjóður minn erfist nefnilega, öfugt við sameignarlífeyrissjóð, sem ég hef líka greitt til öll þessi ár. Búið mitt þyrfti sem sagt að vera orðið DÁNARBÚ; og erfingjar gætu varið eignirnar. Þarf þetta virkilega til?????
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.