3.5.2007 | 21:04
Hvað græðum við á Baugsmálum???
Þessi dagur hófst fyrir alvöru um hádegisbilið, þegar héraðsdómur í Reykjavík kom mér á óvart með því að dæma Baugsmenn seka í vissum atriðum "Stóra Baugsmálsins". Ég var nefnilega alveg sannfærður um að þeir Jón Ásgeir og Tryggvi yrðu sýknaðir í bak og fyrir, en vafi léki á um hvort þriðja sakborningnum, Jóni Geraldi Sullenberger, yrði ekki gerð einhver refsing; þó það væri ekki nema fyrir að hafa raskað ró þeirra heiðursmannanna hjá Baugi.
Ég var auðvitað svona viss um sýknu Baugsmanna nú, eftir að Hæstiréttur Íslands hafði nýverið "strikað yfir" nokkra bókstafi í lögum landsins með því að sýkna þá Baugsmenn fyrir að þverbrjóta lögin um hlutafélög, þegar t.d. Jón Ásgeir tók sér nokkur hundruð milljónir úr sjóðum almenningshlutafélagsins Baugs á sínum tíma og hóf að véla með þær á markaði, án þess að spyrja "kóng né prest" í stjórn félagsins, eða að þess væri getið í ársreikningum; en lög segja, "SVART Á HVÍTU", að svo skuli gera. Samkvæmt Hæstarétti var þetta bara "bisniss"!
Það sama hlýtur auðvitað að gilda nú um önnur hlutafélög á landinu og verður auðvelt að vísa til jafnræðisreglna og dómaframkvæmd þegar við á bókhaldsstofunni skrifum undir næsta ársreikning:
"Viðskipti hluthafa, stjórnarmanna og forráðamanna fyrirtækisins eru færð samkvæmt Baugsvenju og verða því ekki tíunduð frekar en í heildartölum um skuldunauta og lánadrottna!"
Þess vegna kom fangelsisdómur nú yfir Tryggva og Jóni Ásgeiri mér svona á óvart, en ég býst svossum við að þeim finnist á vísan að róa þar sem Hæstiréttur landsins er, miðað við fyrri samskipti við dóminn.
Í "hlutlausri" umfjöllun fjölmiðla fannst mér mikið til koma um "reikningsskil" þeirra varðandi "kostnað" ríkisins við að reka sakamálið. Ég er alveg viss um að þetta er ný stefna hjá fjölmiðlum og að framvegis verði tíunduð útgjöld ríkisins við að reka önnur dómsmál, t.d. gegn morðingjum og barnaníðingum. Auðvitað verður "ríkið" samkvæmt þessu nýja eftirlitskerfi blaða- og fréttamanna, alltaf að hafa í huga hvort það borgar sig fjárhagslega að vera að reka mál gegn þeim sem brjóta lögin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.